news

Engjarós: Samstarf við Giljaskóla

15. 03. 2022

Mikilvægt er að samstarf sé á milli leik- og grunnskóla til að stuðla að samfellu í uppeldi og menntun barnsins og að það upplifi grunnskólann sem eðlilegt framhald af leikskólanum. Í lögum um leikskóla og í aðalnámskrá leik- og grunnskóla er m.a. fjallað um mikilvægi gagnvirks samstarfs þessarar skólastiga og að t.d. leikskólabörnin fái að kynnast umhverfi og starfi grunnskólans áður en þau byrja þar.

Nú loksins höfum við getað farið í heimsókn í okkar vinagrunnskóla, sem er Giljaskóli. Í síðustu viku fórum við á bókasafnið í Giljaskóla þar sem Ingunn, bókavörður, tók á móti okkur. Hún las fyrir okkur eina sögu og svo fengum við að skoða bækur á safninu.

Í þessari viku fóru nemendur okkar í heimsókn í 1. bekk. Við byrjuðum í frímínútum með Giljaskóla og fórum svo inn í stofuna hjá 1. bekk í nesti. Á meðan við borðuðum nestið, las kennarinn sögur fyrir okkur. Þá var okkur skipt upp í þrjá hópa með 1. bekkingum, við fórum á milli þriggja stöðva og vorum ca 20 mínútur á hverri stöð. Á einni stöðinni var fínhreyfiverkefni (klippa út form og líma á réttan stað), á annarri stöð var verkefnahefti og þriðja stöðin var leikstund í frístund. Þessi ferð gekk aldeilis vel og má með sanni segja að nýr og spennandi heimur hafi opnast fyrir nemendum okkar.


© 2016 - 2023 Karellen