SMT

Við á leikskólanum Kiðagili störfum eftir SMT-skólafærni.

Markmið SMT-skólafærni er að skapa gott andrúmsloft í skólum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Þessi nálgun byggir á margra ára rannsóknum sérfræðinga í Oregon í Bandaríkjunum og er framkvæmd í samráði við þá.

SMT-skólafærni byggir á hugmyndafræði PMT-FORELDRAFÆRNI og er framkvæmd undir merkjum þeirrar þjónustueiningar sem verið hefur leiðandi hér á landi í notkun og útbreiðslu PMT-verkfæra til uppalenda. PMT (Parent Management Training) verkfærin eru vel rannsökuð af færustu sérfræðingum. Notkun þerirra stuðlar að góðri aðlögun barna og þau eru því afar mikilvæg hjálpartæki. Foreldrum býðst að tileinka sér PMT-foreldrafærni jafnframt því sem skólasamfélagið á möguleika á innleiðingu SMT-skólafærni.

Við á Kiðagili erum með SMT-teymi sem er skipað deildarstjórum, sérkennslustjóra og skólastjóra. Hlutverk SMT-teymis er sjá til þess að vinnubrögð SMT séu ávallt í notkun. Teymið hittist einu sinni í mánuði þar sem farið er yfir hvernig regluinnlögn gengur og hvort það sé eitthvað sem mætti betur fara varðandi SMT. Teymið sér einnig um kynningar til nýrra starfsmanna. Það er í höndum deildarstjóra að unnið sé eftir SMT á deildum, að reglur séu sýnilegar og aðgengilegar. Deildarstjórar sjá einnig um að farið sé eftir því regluplani sem í gildi er og reglur séu kenndar eftir þeim fyrirmælum sem starfsmenn Kiðagils hafa komið sér saman um. Einnig er mikilvægt að SMT-umræða fari fram á hverjum deildarfundi sem haldinn er.

Þegar ákveðið var að taka SMT-skólafærni inn sem agastefnu Kiðagils var það allur starfsmannahópurinn sem vann að því að semja þær reglur sem í húsinu eru og að koma sér saman um hvernig og hvenær væri best að kenna þær. Komið var upp SMT-teymi eins og áður sagði en einnig er í skólanum lausnateymi. Í lausnateymi er hægt að vísa málum frá deildum, málum sem ekki hefur verið hægt að leysa þar. Þetta hefur reynst vel og oftar en ekki kemur lausnateymi með tillögur að úrbótum í samstarfi við bæði starfsfólk og foreldra. Þetta getur átt við þegar t.d. er sífelldur órói í samverustund, nemandi á í erfiðleikum með hegðun eða kennari á í erfiðleikum með að stjórna hóp.

Í stuttu máli er SMT-skólafærni:

 • Skýr fyrirmæli
 • Kennsla í félagsfærni
 • Jákvætt inngrip
 • Virk notkun félagslegrar hvatningar
 • Nemendum kenndar reglur skólans á beinan hátt
 • Nemendum sett mörk á einfaldan og sanngjarnan hátt
 • Áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda
 • Kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti
 • Samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart óæskilegri hegðun

Þessu náum við fram með þeim verkfærum sem SMT-skólafærni færir okkur, en þau eru:

 • Fyrirmæli-Fyrsta skrefið í áttina að því að auka samstarfsvilja barna með jákvæðum hætti er að skoða þær leiðir sem foreldrar/kennarar nota til að gefa börnum/nemendum sínum fyrirmæli
 • Hvatning-Einstakt verkfæri fyrir foreldra til að kenna nýja hegðun og viðhalda henni með jákvæðum hætti. Sjálfstraust barna/nemenda helst mjög í hendur við þá hvatningu sem þau fá fyrir það sem þau geta eða gera rétt og vel og því má segja að hvatning sé “góðvinur sjálfstraustsins”
 • Lausn vanda-Allir þurfa að leysa ágreining. Best er að takast á við ágreiningsefni kerfisbundið og jafnóðum og þau koma upp til að forðast mikið ósætti. Kerfisbundin lausnaleit dregur úr samskiptaerfiðleikum og stuðlar að jafnvægi í fjölskyldunni og á leikskólanum
 • Að setja mörk-Stöðva þarf óæskilega hegðun eða draga úr henni með því að setja mörk með mildum og sanngjörnum afleiðingum. Foreldrar verða að geta sagt NEI. Skilyrðislaus ást foreldra til barna sinna þarf að ná til þess að geta sett þeim mörk
 • Tilfinningastjórnun-Uppeldi getur valdið mikilli streitu. Það er nauðsynlegt hverju foreldri að búa yfir aðferðum til að stjórna neikvæðum tilfinningum sínum
 • Tengsl foreldra við skóla-Foreldrar eru helstu kennarar barna sinna. Foreldrar geta haft áhrif á frammistöðu barnanna í skóla með því að:
  *Takast á við þann vanda, sem upp kann að koma hverju sinni
  *Skoða í hverju vandinn liggur
  *Greina vandann í smærri skref og nýta viðeigandi foreldraverkfæri til að takast á við málið
 • Eftirlit-Að hafa yfirlit yfir það sem barnið er að gera heima og að heiman. Að geta stýrt barninu/nemandanum í verkefni og félagsskap sem er þroskandi
© 2016 - 2024 Karellen