Sérkennslustefna Kiðagils

Sérkennslustefna Kiðagils byggir á hugmyndafræði Skóla án aðgreiningar og Snemmtækrar íhlutunar. Tekið er mið af Aðalnámskrá leikskóla og skólastefnu Akureyrar. Þar kemur fram að:
Leikskóli á að vera samfélag þar sem hver einstaklingur nýtur virðingar og leggur sitt af mörkum (Aðalnámskrá bls. 21)“.

„Börn og unglingar hafa mismunandi þarfir en öll hafa þau þörf fyrir að þrífast í skólanum og ná árangri. Til að svo megi verða þarf þeim að standa til boða vel skipulögð og metnaðarfull kennsla (Inngangur – skólastefna Akureyrar).“

Hugmyndafræðin „skóli án aðgreiningar“ eða „skóli fyrir alla“ fagnar margbreytileikanum og á Kiðagili er lögð áhersla á vellíðan og öryggi svo allir nemendur fái notið sín. Þetta gildir um alla nemendur hvort sem þeir búa við skilgreinda fötlun eða einhvers konar sérþarfir. Markmiðið er að stuðla að félagslegri blöndun og undirbúningi fyrir þátttöku í samfélaginu með áherslu á að börn einangrist ekki heldur aðlagist vel í barnahópnum.

Sum börn þurfa meiri aðstoð en önnur við að ná markmiðum skólans og eru því fleiri starfsmenn / aukinn stuðningur þegar slík er raunin, svo hægt sé að mæta þörfum hvers og eins. Unnið er með nemandanum innan hópsins eða í minni hópum. Kennsla fyrir minni hópa fer fram inn á deild, í sal, í útiveru og inn í sérkennsluherbergi. Algengastir eru málörvunar- og félagsfærnihópar.

Upp geta komið aðstæður þar sem nemendur þurfa á því að halda að vera í ró. Þá fara þeir í „vinnustund“ í sérkennsluherbergi einn með kennara tímabundið, örstutta stund í einu. Þar er ýmis færni æfð, allt frá því að klæða sig og yfir í að eiga farsæl samskipti. Þegar barn hefur náð byrjendafærni er haldið áfram að æfa þessa færni í litlum hóp og þegar barnið hefur náð góðri færni er haldið áfram að styrkja færnina með öllum hópnum. Áhersla er á að nemandinn upplifi árangur og að hann tilheyri skólasamfélaginu.

Snemmtæk íhlutun byggir á því að bregðast við strax og áhyggjur vakna og hefja þjálfun/örvun á aldrinum 0-6 ára. Snemmtæk íhlutun er forvörn sem hefur það að markmiði að koma í veg fyrir, eða draga úr, áhrifum ýmissa vandamála og erfiðleika sem upp koma í tengslum við þroska, hegðun, mál, félagsfærni og fleira. Ef ekki er gripið nægilega snemma inn í er hætta á að barnið upplifi erfiðleika síðar á ævinni. Snemmtæk íhlutun nýtist öllum nemendum þar sem hægt er að nota hugmyndafræðina í daglegu starfi leikskólans.

Erfiðleikar barns í leik og námi miða ekki aðeins að þroska þess og hegðun heldur geta þeir einnig komið upp vegna þeirra aðstæðna sem barnið býr við, annað hvort heima fyrir eða í leikskólanum. Það er því mikilvægur hluti af starfi kennara að gæta þess að umhverfið sé hvetjandi og styðja við þarfir barna en ekki hamlandi og skapi erfiðleika fyrir það.

Í snemmtækri íhlutun er notast við þverfaglega nálgun þar sem samvinna er á milli ýmissa stofnana og fagfólks.


Vinnuferli sérkennslumála

1. Samtal við foreldra.
Í leikskólanum Kiðagili er lögð áhersla á gott foreldrasamstarf og koma foreldrar/forráðamenn að ferli sérkennslumála strax frá upphafi. Þegar áhyggjur vakna vegna einhversskonar vanda, hvort sem hann tengist þroska, hegðun, samskiptum, máli, uppeldi eða hverju sem er, ræðir deildarstjóri/hópstjóri við foreldra, eða foreldrar leita sjálfir til deildarstjóra/hópstjóra. Deildarstjóri hefur síðan samband við sérkennslustjóra og fer það síðan eftir hvers eðlis málið er hver lausnin verður. Foreldrar geta einnig haft beint samband við sérkennslustjóra og leikskólastjóra.


2. SMT lausnarteymi.
Kiðagil er SMT-skóli og er með starfandi lausnarteymi og oft er byrjað þar, sérstaklega ef vandinn tengist hegðun. Lausnarteymið vinnur þá í samráði við deildina að sameiginlegum úrræðum og einnig geta foreldrar sótt um foreldrafærni námskeiðið PMTO.

PMTO er sannprófuð aðferð sem dregur úr hegðunarerfiðleikum barna. Mikilvægt er að vinna með vandann á fyrstu stigum þróunar þar sem alvarlegir hegðunarerfiðleikar geta leitt til andfélagslegrar hegðunar seinna meir. Þar sem foreldrar eru fyrstu og mikilvægustu kennarar barna sinna er mikilvægt að þeir tileinki sér uppeldisþætti sem stuðla að jákvæðri hegðun barns og draga úr mögulegum hegðunarvanda seinna meir. Í PMTO er foreldrum kennt að nota kerfisbundna hvatningu, að setja mörk, að nýta markvisst eftirlit, að leysa ágreining og eiga jákvæða samveru með börnum sínum. Jafnframt er lögð áhersla á skýr fyrirmæli, tilfinningastjórnun, samskiptatækni og tengsl heimila og skóla (https://www.akureyri.is/is/thjonusta/menntun/pmto-...).


3. Gagnasöfnun.
Skráningar eru mikilvægur þáttur í starfi Kiðagils og leggja grunninn að komandi vinnu eða íhlutun barnsins. SMT-skráningarvika er í hverjum mánuði auk annarra skráninga sem lausnarteymi leggur upp með eða framkvæmir. Það er því í upphafi hvers máls farið í gagnasöfnun og felur það bæði í sér samtal við foreldra og skráningar á einstaklingsfærni eða hegðun í leikskólanum. Þetta er gert með samtölum, skráningum, myndbandsupptökum, greinargerðum og ef þörf þykir; útfylling lista.

Listar sem aðeins kennarar fylla út:

 • AAL er athugunarlisti fyrir atferli leikskólabarna.
 • EFI-2 sem er skimunartæki fyrir mál- og hljóðkerfisvitund lögð fyrir öll börn á fjórða aldursári.
 • Hljóm2 er skimunartæki fyrir mál og hljóðkerfisvitund sem er lögð fyrir öll leikskólabörn á síðasta ári fyrir grunnskóla.
 • Íslenski málhljóðamælirinn er smáforrit sem skimar fyrir um framburð og hljóðkerfisþætti barns og metur hvaða börnum þarf sérstaklega að fylgja eftir vegna m.a. áframhaldandi tilvísunar til talmeinafræðings vegna inngripa í skóla og getur málhljóðamælirinn einnig dregið úr eða staðfest áhyggjur foreldra og/eða kennara um framburðarfrávik og/eða hljóðkerfisvanda barna.
 • Þroskalýsingarblöð og læsishefti sem notað er á Kiðagili.

Við upphaf leikskólagöngunnar fylla foreldrar út lista er varðar málþroska barnsins, en það gefur kennurum góða yfirsýn yfir færni og getu barna og telst til snemmtækrar íhlutunar.

Ef grunur er um málþroskavandamál er mikilvægt að foreldrar fari með barnið í heyrnarmælingu. Það þarf alltaf að gera áður en barni er vísað til talmeinafræðings.
Ef grunur er um sjónskerðingu er mikilvægt að foreldrar fari með barnið í sjónmælingu hjá augnlækni.


4. Umbótaáætlanir/einstaklingsnámskrár.

Út frá gagnasöfnun er gerð umbótaáætlun þar sem unnið er markvisst með ákveðna þætti og er árangur skoðaður eftir ákveðinn tíma, yfirleitt 4-6 vikur. Ef kennarar/foreldrar telja framfarir ekki nægilegar þegar búið er að vinna eftir umbótaáætlun er tekin ákvörðun um gang mála og hvort senda þurfi tilvísun áfram til fræðslusviðs.
Farið er yfir umbótaáætlanir á lausnarteymisfundi mánaðarlega og mánaðarlegum deildarfundum.

Einnig eru útbúin myndræn kerfi og félagshæfnisögur, umbunarkerfi og fleira sem þörf er á. Þetta geta foreldrar fengið heim og hægt að aðlaga að heimilisaðstæðum ef þörf þykir.


5. Tilvísun í sérfræðiþjónustu.

Á fræðslusviði eru m.a. starfandi leikskólaráðgjafi og sálfræðingur sem sjá um málefni leikskóla. Þeir taka við tilvísunum og fylgja þeim eftir, vísa áfram til viðeigandi sérfræðinga og eru í teymisstarfi í skólanum. Einnig er tekið á móti tilvísunum sem koma frá ungbarnaeftirlitinu í kjölfar 2.5 árs eða 4. ára skoðana.

Með tilvísunum þarf að fylgja með greinargerð um barnið og þau gögn sem leikskólinn hefur safnað. Þegar heilsugæslan sendir tilvísun kallar fræðslusvið eftir fylgigögnum frá leikskóla.

Tilvísanir geta verið allt frá því að fá leikskólaráðgjafa til að fylgjast með og aðstoða/ráðleggja kennara og/eða foreldra, til sálfræðilegrar greiningar, þroskamats, talkennslu, PMTO- eða annarra námskeiða, svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægt er að kennarar og foreldrar séu samstíga og samvinna ríki þar á milli á öllum stigum málsins.

Ef talin er þörf á sálfræðilegri greiningu eru fylltir út matslistar sem sálfræðingur fræðslusviðs fer yfir. Allir þessir listar og öll gagnasöfnun gefa vísbendingar um hvort og þá hvernig hægt sé að bregðast við til að styrkja barnið eða aðstoða barnið til að komast út úr ákveðnum vanda.

Listar sem bæði foreldrar og kennarar fylla út eru, eftir því hvað á við:

 • Listi sem metur Mótþróaþrjóskuröskun.
 • ASEBA. Þetta er spurningarlisti um hegðun og líðan barna á aldrinum 1½-5 ára og spurningar varða færni og vanda barnsins.
 • ADHD listinn (ADHD-Rating Scale).
 • SDQ-Ice eða Spurningar um styrk og vanda, en það er listi sem metur hegðun og líðan barna eldri en 4 ára. Skoðað er ofvirkni, hegðunarvanda, samskiptavanda, tilfinningavanda og jákvæða félagslega hegðun.
 • CAST er listi sem metur atriði á einhverfurófi.
 • AEPS-matskerfið en það nýtist við gerð einstaklingsnámskrár. Gerð eru markmið út frá færni barna á sex þroskasviðum: fín- og grófhreyfingum, vitrænum þáttum, aðlögun, félagslegum tjáskipum og félagslegu samspili.

Listar sem aðeins foreldrar fylla út eru t.d. Smábarnalistinn og Íslenski þroskalistinn.


6. Fundur með sálfræðing, sérkennsluráðgjafa, foreldrum og kennurum

Sérkennsluráðgjafi leikskóla tekur við tilvísun og fer yfir gögn varðandi barnið. Auk þess kemur hann í leikskólann og fylgist með barninu og kennurum og heldur í kjölfarið fund á leikskólanum. Hann metur þar í samráði við leikskólann og foreldra hver næstu skref eru.

Útbúnar eru misflóknar einstaklingsáætlanir í samráði við foreldra og leikskólaráðgjafa og haldnir reglulegir teymisfundir þar sem þörf er á.

Þegar matslistar hafa verið fylltir út fer sálfræðingur fræðslusviðs yfir þá og kallar til skimunarfundar á leikskólanum til að fara yfir úrlausn þeirra. Ekki er leikskólaráðgjafi á þeim fundum nema ástæði þykir til. Eftir fundinn útbýr sálfræðingurinn álitsgerð sem send er bæði til foreldra og leikskóla. Álitsgerðin sýnir niðurstöður matslista og annarra fylgiskjala, álit á stöðu barns og tillögur um næstu skref. Á fundinum er sett fram áætlun um þátt skóla, foreldra og sérfræðiþjónustu um þessi næstu skref eða hvort máli sé lokið.


7. Teymisvinna og teymisfundir

Í ákveðnum tilfellum eru áframhaldandi teymisfundir á 6-8 vikna fresti. Í teyminu sitja sérkennsluráðgjafi, sérkennslustjóri, deildarstjóri/hópstjóri og/eða stuðningsaðili (ef við á) og foreldrar. Gert er endurmat á einstaklingsnámskrá og sett eru markmið með áframhaldandi vinnu. Einnig geta bæði foreldrar og kennarar fengið ráðgjöf varðandi þá þjónustu, hjálpartæki og námskeið sem þeir kunna að eiga rétt á.

Á teymisfundi koma einnig aðrir aðilar sem koma að málum barns, t.d. sjúkraþjálfari, iðjuþjálfari, talmeinafræðingur, félagsráðgjafi Öskju og tengiliður á Greiningarstöð.


Sérkennslustjóri

Sérkennslustjóri á Kiðagili er Sóley Kjerúlf Svansdóttir, soley(hjá)akmennt.is.

Sóley er með BS í sálfræði, viðbótardiplómu í sérkennslufræðum, kennsluréttindi og meistaragráðu í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf. Vinnutími er frá 8:15-15:30.

Sérkennslustjóri er ekki með fasta viðtalstíma en öllum foreldrum leikskólans er velkomið að hafa samband og fá tíma eftir samkomulagi.

Sérkennslustjóri starfar sem tengiliður í tengslum við samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

Innan leikskólans starfar sérkennsluteymi en í því er sérkennslustjóri, sérkennarar og aðrir starfsmenn með deildarstuðning ásamt leikskólastjóra. Teymið vinnur saman að málum sem varða sérkennslu og er þetta hluti af snemmtækri íhlutun þar sem reynt er að mæta þörfum hvers og eins nemenda eins fljótt og hægt er.


Starfslýsing og hlutverk sérkennslustjóra:

Sérkennslustjóri starfar samkvæmt lögum og reglugerð um leikskóla, lögum um málefni fatlaðra, öðrum lögum er við eiga, aðalnámskrá leikskóla og stefnu viðkomandi sveitarfélags.

Stjórnun og skipulagning:

 • Ber ábyrgð á skipulagningu, framkvæmd og endurmati sérkennslunnar í leikskólanum ásamt leikskólastjóra.
 • Er faglegur umsjónarmaður sérkennslu í leikskólum.
 • Ber ábyrgð á miðlun upplýsinga milli leikskólaráðgjafa v/sérkennslu/sérkennslufulltrúa leikskóla og starfsmanna leikskólans.
 • Hefur umsjón með uppeldis- og námsgögnum leikskólans sem tengjast sérkennslu.

Uppeldi og menntun:

 • Ber ábyrgð á að börnum sem njóta sérkennslu í leikskólanum sé boðið upp á þroskavænleg verkefni í leik og starfi.
 • Hefur yfirumsjón með gerð verkefna og áætlana fyrir börn sem njóta sérkennslu.
 • Hefur yfirumsjón með að meðferðar- og kennsluáætlunum annarra sérfræðinga sé framfylgt og að skýrslur séu gerðar.

Foreldrasamvinna:

 • Vinnur í nánu samstarfi við foreldra/forráðamenn barna sem njóta sérkennslu í leikskólanum og situr fundi og viðtöl með þeim.
 • Veitir foreldrum/forráðamönnum barna sem njóta sérkennslu stuðning, fræðslu og ráðgjöf.
 • Situr foreldrafundi sem haldnir eru á vegum leikskólans.

Annað:

 • Ber að hafa náið samstarf við leikskólaráðgjafa v/sérkennslu og ýmsa sérfræðinga sem tengjast leikskólanum vegna barna sem njóta sérkennslu.
 • Situr fundi þar sem fjallað er um málefni barna sem þurfa sérfræðiaðstoð eða sérkennslu í leikskólum samkvæmt boðun yfirmanns eða hlutaðeigandi aðila.
 • Situr starfsmannafundi og aðra fundi er yfirmaður segir til um og varða starfsemi leikskólans.
 • Sinnir þeim verkefnum er varða sérkennslu sem yfirmaður felur honum.

Tekið af heimasíðu http://www.ki.is

© 2016 - 2024 Karellen